Auglýsingastofurnar ENNEMM og Janúar Markaðshús fengu flest verðlaun eða fjóra lúðra hvor á hinni árlegu afhendingu Íslensku markaðsverðlaunanna, Lúðrinum, sem haldin var við hátíðlega athöfn í Hörpunni í gærkvöld.

Brandenburg hlaut þrjá lúðra og H:N Markaðssamskipti og Tjarnargatan framleiðslufyrirtæki tvo lúðra hvor.  Jónsson og Le´macks fékk einn lúður.

ÍMARK, Samtök íslensks markaðsfólks, stendur fyrir viðburðinum í samráði við Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA). Tilgangur Lúðursins er að vekja athygli á vel gerðu auglýsingaefni og veita aðstandendum þess verðskuldaða athygli. Þetta er í tuttugasta og áttunda skipti sem Lúðurinn er haldinn en keppnin er opin öllum sem stunda gerð eða dreifa auglýsingum á Íslandi.

Lúðurinn er veittur í 15 flokkum þar sem auglýsingar sem skarað hafa fram úr á árinu eru verðlaunaðar. Það sem ræður úrslitum er hversu frumleg, snjöll og skapandi hugmyndin er og svo hversu vel hún er útfærð.

Janúar Markaðshús fékk lúðurinn fyrir bestu auglýsingaherferðina „Takk fyrir Malt“ sem unnin var fyrir Ölgerðina Egil Skallagrímsson. Kvikmyndaða auglýsingin sem Janúar gerði fyrir Ölgerðina um þennan vinsæla drykk fékk einnig lúðurinn í þeim flokki.

ENNEMM fékk lúðurinn fyrir bestu prentuðu auglýsinguna ,,Við vitum að allt getur gerst“ sem unnin var fyrir VÍS og H:N Markaðssamskipti fékk lúðurinn fyrir árangursríkustu auglýsingu ársins ,,Betri en þú“ sem unnin var fyrir markaðsráð kindakjöts.