Yfirmaður Persónuverndar í þýska fylkinu Schleswig-Holstein, Thilo Weichert, tilkynnti nokkuð óvænt sl. föstudag að „like“ takkinn á Facebooksíðum bryti í bága við persónuverndarlög í Þýskalandi. Greint er frá málinu á vefsíðu Blaðamannafélagsins en það hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi.

Afleiðingar ákvörðunarinnar eru þær að stjórnendur vefsíðna sem bjóða upp á þennan möguleika gætu átt von á því að verða sektaðir fyrir brot á persónuverndarlögum. Sektir geta numið allt að 50 þúsund evrum, jafnvirði rúmlega 8 milljóna króna.

Ástæðan fyrir því að „like“ takkinn er sagður ólöglegur er sá að dómi Thilo Weichert, að Facebook fyrirtækið getur safnað saman „like“ merkingum úr tilteknum tölvum og búið til neyslu- og viðhorfamynd (prófíl) af tilteknu fólki, en slíkt er ólögmætt samkvæmt lögunum.

Facebook hafnar hinsvegar þessum ásökunum og segist ekki hafa tæknilega heimild eða getu til að gera þetta og eyði út upplýsingum um einstaklinga innan 90 daga eins og kveðið sé á um í Evrópulögum.

Nánar má lesa um málið hér .