Útgjaldaþróun hins opinbera hér á landi hefur verið á skjön við þróun annarra ríkja innan OECD og mikið hefur vantað upp á til að hægt sé að tala um aðhaldssama stefnu í ríkisfjármálum að mati Viðskiptaráðs. Ætli stjórnvöld sér að tryggja að aðhaldsaðgerðir næstu ára beri þann árangur sem ætlað er og þar með að efla trúverðugleika ríkisfjármálastefnunnar til langframa er mikilvægt að koma í veg fyrir að ónákvæmar fjárhagsupplýsingar og skekkjur flytjist kerfisbundið milli ára. Að sama skapi skiptir miklu að raunveruleg fjárhagsstaða ríkisins hverju sinni liggi skýrar fyrir þegar fjárlög hvers árs eru unnin.

Innleiða má bindandi útgjaldaþak fyrir hvert ráðuneyti yfir heilt kjörtímabil. Einnig ætti að takmarka ráðrúm til útgjaldaaukningar við þinglega meðferð fjárlagafrumvarpsins. Að lokum er þarft að festa í sessi raunverulega ábyrgð ráðuneyta, forstöðumanna og stjórna stofnana á því að halda veittum útgjöldum innan heimilda. Hið aukna frelsi sem fylgdi nýrri skipan ríkisfjármála hefur ekki fylgt aukin ábyrgð að mati Viðskiptaráðs.