Fyrirkomulag við sölu lóða hjá nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er ekki það sama og útboðsfyrirkomulag Reykjavíkurborgar. Í Hafnarfirði og Kópavogi er stuðst við fast verð við sölu lóða í eigu sveitarfélaganna.

Alls 88 einbýlishúsalóðir eru til sölu í Kópavogi sem seljast jafnt og þétt. Í Hafnarfirði er ekki mikil eftirspurn eftir lóðum en þó selst einstaka lóð. Þar eru 29 lóðir til sölu sem ýmist eru fyrir einbýlishús, raðhús eða parhús. Þá mun úthlutun lóða í nýju hverfi Hafnarfjarðar, Skarðsvík, hefjast í haust og þar verða nokkrir tugir lóða í boði.

Í Garðabæ og Mosfellsbæ eru þær lóðir sem til sölu eru í sveitarfélögunum flestar í eigu einkaaðila. „Bærinn á lítið af landnæði sjálfur til að skipuleggja undir íbúðabyggð. Þannig hafa þau hverfi sem eru í uppbyggingu núna í Leirvogstungu og við Helgafell verið byggð upp í einkaframkvæmd,“ segir Aldís Stefánsdóttir, forstöðumaður þjónustu- og upplýsingamála Mosfellsbæjar. Á heimasíðu Mosfellsbæjar er að finna 14 lóðir til sölu og eru 13 þeirra undir einbýli og eru þær seldar á föstu verði.

Engar lóðir eru til sölu í Garðabæ af hálfu bæjarfélagsins. „Mér finnst ekki mikið spurt eftir lóðum en þó að þær séu ekki í boði hjá bæjarfélaginu eru engu að síður framboð af lóðum í bænum. Enn eru óbyggðar einbýlishúsalóðir í Akrahverfinu og þá er að hefjast uppbygging í Urriðaholti. Allar lóðir á þessum stöðum eru í eigu einkaaðila sem ráðstafa þeim sjálfir,“ segir Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari Garðabæjar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .