Ekkert bendir til þess að mikil rafbílavæðing muni eiga sér stað hér á landi á næstu árum. Með því er átt við að lítið verði um það að bílar, sem eru eingöngu rafbílar, verði fluttir hingað til lands í stórum stíl til almennra nota.

Þetta er samdóma álit þeirra sem Viðskiptablaðið hefur rætt við síðustu vikur og eru vel kunnugir bílaheiminum.

Í stuttu máli má segja að tækniþróun rafbílanna sé í raun ekki komin lengra en það að þeir fara töluvert innan við 100 km á einni hleðslu. Fyrir þá sem keyra eingöngu innanbæjar getur það vissulega dugað allflesta daga. Hins vegar eru erlendar mælingar á drægi bílanna ekki að öllu marktækar hér á landi, þar sem prófanir eru yfirleitt gerðar í erlendum stórborgum sem eru lausar við íslenska kuldann, brekkurnar og í raun þær almennu og oft á tíðum erfiðu ökuaðstæður hér á landi.

Til að einfalda málið enn frekar má fullyrða að sá sem á rafbíl mun eingöngu nota hann í innanbæjarakstur og þá með ákveðnum takmörkunum. Ef við tökum dæmi af einstaklingi sem búsettur er á höfuðborgarsvæðinu mun sá aðili ekki fara á rafbílnum sínum í ferðalag út á land. Í raun kæmist hann tæplega til Keflavíkur og til baka án þess að hlaða bílinn því enn sem komið er hefur enginn rafbíll drægi yfir 100 km í íslenskum aðstæðum.

Nánar er fjallað um þróun rafbílavæðingar hér á landi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.