Fjölmörg samtök atvinnurekenda í Bretlandi hafa hvatt til þess að takmarkanir verði settar á innflutning á vinnuafli frá Rúmeníu og Búlgaríu, ef ríkin fá inngöngu í Evrópusambandið á næsta ári, segir í frétt Financial Times.

Skortur á vinnuafli í verkamannastörf og launaverðbólga hafa orðið til þess að atvinnurekendur hafa hingað til tekið fagnandi á móti ódýru vinnuafli frá Austur-Evrópuríkjunum sem fengu aðgöngu árið 2004.

Nú eru hins vegar áhyggjur uppi um að ef ríkisstjórnin haldi áfram að hleypa ótakmörkuðum fjölda innflutts vinnuafls, muni það hafa áhrif á almenningsþjónustu, sem þegar er af skornum skammti, og einnig mögulegra samfélagsáhrifa, segir í fréttinni.

Susan Anderson, talsmaður stærstu samtaka atvinnurekenda í Bretlandi, Confederation of British Industry, segir að góð rök séu nú fyrir því að gera hlé á innflutningi vinnuafls, á meðan ástandið er metið út frá gefinni reynslu.

392.000 manns frá Austur-Evrópu hafa sótt um atvinnuleyfi síðan í maí 2004, en líklegt er að fjöldi erlends vinnuafls sé mun hærri, segir í fréttinni.