Takmarkanir á samkeppnislögunum eiga ekki við um kaup Kaupfélags Skagfirðinga á tveimur sláturhúsum. Þetta segir forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku, festi Kaupfélag Skagfirðinga nýverið kaup á 60% hlut í Sláturfélaginu á Hellu og jafnstórum hlut í Kjötbankanum í Hafnarfirði. Eftir samrunann eru 3 af 9 stórgripasláturhúsum sem starfandi eru á Íslandi í eigu KS.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að tilkynning um kaupin hafi borist á föstudag. „Þetta er bara venjulegur samruni sem kemur til skoðunar,“ segir Páll Gunnar. „Það er skylda að tilkynna samruna sem eru yfir tilteknum veltumörkum.“ Páll segir að mat verði lagt á kaupin eftir helgi.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að samruninn hafi verið andstæður markmiðum samkeppnislaga árið 2009 þegar Kaupfélag Skagfirðinga keypti Mjólku ehf. og Eyjabú. Eftirlitið skorti hins vegar lagaheimild til að grípa til íhlutunar vegna ákvörðunar Alþingis frá árinu 2004. „Samkeppnislögum var vikið til hliðar að hluta til í tilfelli mólkurafurðastöðva í búvörulögunum,“ segir Páll Gunnar. „Það er ekki hið sama uppi á teningnum í þessu.“