Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum á gjaldeyrismál er hert á undanþágum gjaldeyrishafta um útgreiðslur í íslenskum krónum úr innlendum þrótabúum til erlendra aðila, um sérstaka undanþáguheimild sem þrotabúa föllnu bankanna til fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri og undanþáguheimild til að skipta jafngreiðslum og verðbótum af höfuðstól skuldabréfa. Sérstaka undanþáguheimildin fyrir föllnu bankana hefur meðal annars gert þeim kleift að greiða kröfuhöfum sínum í erlendum gjaldeyri.

Með frumvarpinu er fellt á brott undanþáguákvæði sem heimilar ótakmarkaðar fjármagnshreyfingar í innlendum gjaldeyri vegna greiðslu á kröfum úr þrotabúum og greiðslu samningskrafna samkvæmt nauðsamningi.

Þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu. Það er nú til umræðu á Alþingi. Til stendur að samþykkja frumvarpið í kvöld, fyrir opnun markaða á morgun.

Í athugasemdum frumvarpsins segir að fjármagnshreyfingarnar séu takmarkaðar vegna þess að „þær gætu að óbreyttu grafið undan áætlun um losun fjármagnshafta og valdið alvarlegum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, sem aftur gæti leitt til verulegrar gengislækkunar krónunnar, höggvið stór skörð í gjaldeyrisforða þjóðarinnar eða hvort tveggja“.

Tilgangurinn með því að afnema undanþágu er sagður vera sá að gefa Seðlabanka Íslands svigrúm til að hafa meiri stjórn á þessum fjármagnshreyfingum með sérstækum undanþágum. „Þannig verði hægt að sjá til þess að útgreiðslurnar séu í þeim farvegi að neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð verði í lágmarki og fjármálastöðugleiki tryggður, t.d. hvað varðar lausafjárstöðu og gjaldeyrisjöfnuð nýju bankanna,“ segir í athugasemdum.

Frumvarp til laga um breytingu á gjaldeyrismálum .