*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 28. desember 2007 12:07

Takmörkuð vaxtartækifæri fyrir Kaupþing í Færeyjum

stóra verkefnið að innleiða NIBC inn í samstæðuna

Ritstjórn

Áherslur Kaupþings er nú orðnar aðrar og þess vegna var starfssemin í Færeyjum seld til Eik banka, að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs bankans. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að færeyska starfssemin hafi vaxið í ásættanlega stærð, á færeyskum mælikvarða, en þar séu takmarkaðir vaxtamöguleikar.

Stóra verkefni Kaupþings er nú, að sögn Jónasar, að innleiða hollenska viðskiptabankann NIBC inn í samstæðuna. Söluverðið á færeysku starfsseminni fæst ekki uppgefið. Jónas segir verðið “ásættanlegt”. 

Aðspurður hvort þessi sala tengist því að losa um eignir í erfiðu árferði, segir hann svo ekki vera. “Nei, þetta er svo lítið.” Í fréttatilkynningu segir að áhrif sölunnar á rekstur og efnahag Kaupþings eru óveruleg.

Ekki er gefið upp hvort Kaupþing setti starfssemina á sölu eða hvort Eik banki hafi sóst eftir að kaupa starfssemina að fyrrabragði.

Aðspurður hvort vænta megir frekari eignasölu segir Jónas að það verði að koma í ljós. Hann geti hvorki játað því né neitað.

Kaupþing hefur áður selt Eik banka fyrirtæki. Félögin stofnuðu saman útibú  í Danmörku árið 2001, sem Eik banki keypti að fullu 2004.

Í fréttatilkynningunni segir að starfsemi Kaupþings í Færeyjum, sem hófst árið 2000, hafi einkum snúist um miðlun verðbréfa, eignastýringu, útlán og aðra hefðbundna fjárfestingabankastarfsemi.

„Undanfarin ár hefur starfsemin í Færeyjum gengið vel en þar starfa nú um 30 manns. Eik Banki greiðir fyrir starfsemina með reiðufé og mun yfirtaka innlán Kaupþings í Færeyjum sem og megnið af þeim lánum sem bankinn hefur veitt þar. Áhrif sölunnar á rekstur og efnahag Kaupþings eru óveruleg. Salan er háð venjubundnum fyrirvörum af hálfu kaupanda og seljanda," segir í fréttatilkynningunni.