*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 8. mars 2021 14:59

Taks skoðar þrjú Samherjafélög

Íslensk lögreglu- og skattayfirvöld hafa leitað til færeyska skattsins um að aðstoða við rannsókn á félögunum Tindhólmi, Harengus og Scombrus.

Jóhann Óli Eiðsson
Frá Þórshöfn, höfuðstað Færeyja.
Aðsend mynd

Íslensk lögreglu- og skattayfirvöld hafa leitað eftir aðstoð til nágranna okkar í Færeyjum vegna rannsóknar á meintum mútu- og skattalagabrotum félaga innan. Þetta staðfestir færeyski skatturinn, Taks, við Kringvarpið.

Samkvæmt frétt Kringvarpsins hefur Samherji stofnað þrjú félög í Færeyjum utan um dótturfélög sín á Kýpur. Umrædd félög heita Tindhólmur, Harengus og Scombrus. Samherjasamstæðunnar í Namibíu. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Færeyinga voru öll félögin þrjú tekin til gjaldþrotaskipta í nóvember á síðasta ári að beiðni stjórnarmanna. Rannsókn á málinu stendur yfir og hafa íslenskir rannsakendur óskað eftir liðsinni frænda okkar um hvort og þá hvernig færeysku félögin hafi tekið þátt í hinni meintu refsiverðu háttsemi.

Fyrir skemmstu hafnaði Landsréttur kröfu Héraðssaksóknara um skyldu KPMG, auk núverandi og fyrrverandi starfsmanna, yrði gert skylt að afhenda embættinu gögn varðandi þjónustu gagnvart samstæðunni á tilteknum tíma. Úrskurður héraðsdóms þess efnis var felldur úr gildi þar sem rannsóknargögn lágu ekki fyrir þegar úrskurðurinn var kveðinn upp.

Annað kvöld mun færeyska Kringvarpið sýna heimildarþáttinn „Teir ómettiligu“, sem gæti útlagst sem „Hinir óseðjandi“ á hinu ástkæra ylhýra, sem fjallar um þátt Færeyja í meintum afbrotum Samherja í Namibíu.

Stikkorð: Samherji Namibía