Takumi er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem hefur átt góðu gengi að fagna að undanförnu í Bretlandi og mun hefja starfsemi í Þýskalandi á komandi mánuðum. Stofnendur fyrirtækisins ræddu við Viðskiptablaðið um breytta tíma á auglýsingamarkaði og áhrif Brexit á nýsköpunarumhverfið í Bretlandi og Evrópu.

Takumi er fyrirtæki sem leiðir saman svokallaða áhrifavalda á samfélagsmiðlum (e. influencers), þ.e. einstaklinga sem eru með yfir 1.000 fylgjendur á Instagram, og fyrirtæki sem eru að leita eftir því að koma vörum sínum á framfæri. Fyrirtækið sem stofnað er af Jökli Sólberg Auðunssyni, Guðmundi Eggertssyni og Mats Stigzelius, hefur átt mikilli velgengni að fagna síðan það kom á markað í London í nóvember í fyrra og hefur vaxið um 60% á milli mánaða síðustu fjóra mánuði. Yfir 20.000 manns hafa nú sótt smáforrit Takumi.

„Takumi er auðveldasta leiðin fyrir fyrirtæki til að fá vinsæla Instagram-notendur, eða áhrifavalda, til að vekja athygli á vöru eða þjónustu sem það er með. Jafnframt er þetta auðveldasta leiðin fyrir þessa áhrifavalda til að komast í samband við vörumerki. Við sjáum um öll samskipti við fyrirtækin og áhrifavaldana og í raun allt ferlið frá A til Ö. Við sjáum um auglýsingaherferðir og greiðslur til þeirra sem taka myndirnar, við finnum áhrifavaldana og segjum þeim hvað þarf að gera og svo framvegis,“ segir Jökull. Takumi-smáforritið stendur, enn sem komið er, aðeins breskum notendum til boða en það mun þó koma til með að breytast í náinni framtíð.

Mikil orka í hvert markaðssvæði

En hvernig er ferlið? Hvernig bera svokallaðir áhrifavaldar sig að ef þeir vilja freista þessa að nýta sér þjónustu Takumi?

„Fyrsta verk fyrir einstakling er að ná sér í forritið, og um leið fáum við allar þær upplýsingar sem við þurfum til að meta hvort viðkomandi uppfylli skilyrði Takumi. Við skoðum fjölda fylgjenda, staðsetningu og myndirnar sem hann eða hún hefur verið að taka. Ef viðkomandi er staðsettur í Bretlandi, og er með meira en 1.000 fylgjendur þá kemst hann inn á radarinn okkar. Við erum svo með starfsfólk sem fer í gegnum hvern einn og einasta aðgang,“ útskýrir Guðmundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.