Stórt útibúanet Landsbankans hefur rýrt afkomu hans að mati heimildarmanna blaðsins sem til þekkja. Þeir telja ennfremur að eignarhaldið hafi haft áhrif á vilja innan bankans til að minnka það.

Eitthvað hafi verið um sameiningar og minnkun útibúa, en lokanir þeirra séu jafnan óvinsælar – sér í lagi á landsbyggðinni – og veki oft hörð viðbrögð stjórnmálamanna, sem þegar upp er staðið hafi örlög bankans í höndum sér.

Bankasýsla ríkisins fer með hluthafavald yfir Landsbankanum fyrir hönd ríkisins, í svokallaðri armslengd frá stjórnmálamönnum sjálfum. Sýslan skipar stjórn bankans, eða bankaráð eins og það er kallað, að fenginni tilnefningu óháðrar valnefndar. Þrátt fyrir beina stjórnskipulega fjarlægð segja heimildarmenn þó að opinber tjáning ráðamanna hafi talsverð áhrif á ákvarðanatöku innan bankans.

Einn þeirra segir arðsemi og hagræðingu hafa verið meira áberandi í rekstri bankans á árunum fyrir heimsfaraldurinn, þegar bankinn skilaði yfir þriggja ára tímabil mestri arðsemi meðal viðskiptabankanna. Á þeim tíma hafi útlit verið fyrir að bankinn yrði hugsanlega skráður á markað og seldur, í það minnsta að hluta.

Sérstök áhersla hafi þá verið lögð á að endurskipuleggja og auka arðsemi í því skyni að gera hann aðlaðandi fyrir fjárfesta og hámarka þannig söluverð hans fyrir Bankasýsluna og ríkið. Undan þeim áherslum hafi hins vegar fjarað samhliða breyttum tíðaranda.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.