AUÐUR 1, fjárfestingarsjóður í umsjá Auðar Capital, greiddi um 594 milljónir króna fyrir fjarskiptafyrirtækið Tal þegar sjóðurinn keypti allt hlutafé þess í júlí síðastliðnum. Viðskiptablaðið greindi frá því í október að hlutafé IP-fjarskipta, sem á og rekur Tal, hefði verið hækkað um 80 milljónir króna þegar AUÐUR 1 keypti félagið.

Til viðbótar við þetta keypti sjóðurinn allt annað hlutafé, samtals um 238 milljóna króna virði á nafnvirði, á genginu 2,16. Samtals voru því greiddar um 514 milljónir króna fyrir félagið og hlutafé þess til viðbótar aukið um 80 milljónir króna.

IP-fjarskipti tapaði 113,8 milljónum króna á árinu 2009. Skuldir félagsins stóðu í 472 milljónum króna og eigið fé þess var neikvætt um síðustu áramót.