Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið er á dagskrá Alþingis klukkan þrjú í dag. Það hefur verið rætt í þaula síðustu daga en umræðum um það stóð frá hádegi í gær til klukkan rúmlega sex í morgun. Áður en umræður hófust í gær var tekist harkalega á um tvennt: ásakanir stjórnarliða að stjórnarandstaðan héldi uppi málþófi og fullyrðingu Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, að ef fjárlagafrumvarpið verði ekki afgreitt fyrir áramót þá verði ekki hægt að greiða ríkisstarfsmönnum laun.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu áherslu á mikilvægi þess að ræða um fjárlögin í stað þess að láta þau fara órædd til þriðju umræðu. Stjórnarliðar vörðu hins vegar ríkisstjórnina.

Steingrímur talaði í tvær og hálfa klukkustund

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, benti að Steingrímur hafi farið með rangt mál þegar hann hélt því fram að ekki verði hægt að greiða út laun. Hann rifjaði m.a. upp að þegar umræðum um fjárlög ársins 2009 hafi lokið um miðjan desember árið 2008 þá hafi laun verið greidd í janúar. Hann rifjaði upp að í raun hafi umræðunni yfirleitt lokið um svipað leyti í gegnum árin án þess að það hafi komið niður á launaumslagi ríkisstarfsmanna. Hann nefndi sérstaklega að þegar Steingrímur var síðast í ríkisstjórn - árið 1990 - hafi umræðunni lokið 12. desember sama ár.

Þá rifjaði Illugi upp að Steingrímur sjálfur - sem nú saki stjórnarandstæðinga um málþóf - hafi átt þann heiður að hafa talað um fjárlagafrumvarp út í eitt fyrir nokkrum árum.

„Steingrímur talaði á sínum tíma í tvær og hálfa klukkustund. Enginn ræðumaður hefur talað í líkingu jafn lengi,“ sagði hann og áréttaði að það væri réttur þingmanna að tala um fjárlögin.