Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra , formaður Framsóknarflokksins og einn forystumanna nýmyndaðrar ríkisstjórnar var varla lentur í ráðuneytinu þegar hann settist niður með okkur til að fara yfir málin.

Það er ýmislegt óvenjulegt við stjórnarskipti í desemberbyrjun en fjárlagagerð er sennilega það mest aðkallandi. „Við erum að vinna á fjórum dögum það sem venjuleg ríkisstjórn hefur fjóra mánuði til að gera,“ segir Sigurður Ingi. Fjárlögin byggja því óhjákvæmilega töluvert á því frumvarpi sem síðasta ríkisstjórn lagði fram nokkrum dögum áður en hún sprakk. „Við leggjum þó strax okkar áherslur inn í þetta þannig að við getum sýnt strax hvert við ætlum að stefna sem ríkisstjórn.“

Hvert ætlið þið að stefna sem ríkisstjórn?

„Eins og kemur kannski engum á óvart þá erum við strax í þessum fjárlögum að sýna á spilin með innviðauppbyggingu í heilbrigðis-, mennta- og samgöngumálum. Það var meiningin með því að búa til þessa ríkisstjórn sem hefur breiða skírskotun að það er fullt af aðgerðum og áherslum sem í raun og veru allir flokkar eru sammála um. Nú ætlum við að taka höndum saman og hrinda þeim í framkvæmd.“

Ríkisstjórnin var mynduð eins og þú orðaðir það á breiðum grundvelli. Nú þegar hafa tveir þingmenn VG sett fyrirvara við hana og Páll Magnússon lýsti sig ósammála ráðherravalinu. Er þetta eitthvað sem er tilefni til að hafa áhyggjur af núna í upphafi? „Nei, ég held ekki. Það kom strax í ljós andstaða þessara tveggja [Andrésar Inga Jónssonar og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur] þegar við lögðum af stað í þessar formlegu viðræður. Ég heyrði engu að síður annan tón í þeim í fjölmiðlum um helgina þannig að ég hef ekki áhyggjur af því. Og auðvitað eru margir þingmenn sem, betur fer, með mikinn metnað, og verða fyrir vonbrigðum og dálítið reiðir jafnvel við að vera ekki valdir í ráðherrastól af sínum formanni. En þegar upp er staðið eru þetta mjög öflugir þingmenn og verða þar af leiðandi góðir liðsmenn í þessari ríkisstjórn. Ég efa það ekkert.“

Hvernig náið þið Bjarni og Katrín saman?

„Það er mjög gott samkomulag á milli okkar og við erum búin að þekkjast lengi í þessu stjórnmálavafstri og höfum verið síðastliðin tvö ár í formennsku. Ég verð bara að segja að þetta er hið ágætasta fólk. Við erum með mjög ólíkan bakgrunn og þar af leiðandi úr mismunandi íslenskum menningarheimum. Katrín í Vesturbænum, Bjarni úr Garðabæ og ég af landsbyggðinni. Þannig endurspeglum við ekki síst þessa breiðu skírskotun. Við vorum sjálf að tala um þetta nýlega, að kannski náum við svona vel saman af því að við komum úr ólíkum áttum en vinnum á sama vettvangi. Þau eru það ágæt að manni gæti jafnvel dottið í hug að bjóða þeim í mat sem vinum, það er aldrei að vita,“ segir Sigurður Ingi og brosir sposkur.

Hefur ekki þörf fyrir að slást

Hvernig heldur þú að takist að fá stjórnarandstöðuna um borð í að ná fjárlögum í gegn og tryggja þennan stöðugleika sem kallað er eftir?

„Það á auðvitað eftir að reyna á það. Minnihlutinn er vissulega líka með nokkuð breiða skírskotun og flokkarnir mjög ólíkir. Ég vonast auðvitað eftir góðu samstarfi. Við reyndum að skrifa þann tón inn í stjórnarsáttmálann að við værum með samstarfi þessara þriggja flokka að fara að efla Alþingi sem stað þar sem allir flokkar fá svolítið að njóta sín, líka þekking og reynsla þeirra flokka sem ekki eru í stjórn á hverjum tíma. Í sáttmálanum eru talin upp óvanalega mörg verkefni sem við ætlum að vinna í breiðara samráði. Við erum öll meðvituð um að tíminn fram að áramótum til að ljúka fjárlögum er mjög knappur. Engu að síður var tónninn í minnihlutanum þegar við hittum þau þannig að þau hefðu ekki áhyggjur að fjárlögin myndu ekki klárast.“

Sú mynd sem margir hafa af þér úr fjölmiðlum er að þú sért maður sátta. Er það kannski þitt innlegg í þetta þriggja flokka samstarf?

„Já, ég held það. Ég er mjög glaður yfir þeim vitnisburði, mér finnst persónulega oft betra í lífinu að komast á leiðarenda með sátt, þó að það þurfi að taka einn krók. Ég þarf ekki að fara í slag til að ná markmiðum mínum ef það er hægt að ná þeim án þess að fara í skotgrafir. Mér finnst þetta vera betri leið til að ná fram góðum niðurstöðum. Að tala saman og finna leiðirnar frekar en að slást um það hver sé sterkastur. Ég var í sex ár í námi í Kaupmannahöfn þegar ég var ungur og fylgdist með stjórnmálaumræðu þar og hef gert síðan.

Mér fannst áberandi munur á stjórnmálaumræðunni í Danmörku og því sem var og er hér á Íslandi. Við ætlum að gera okkar til að breyta því. Þar var meira um samtal stjórnar og stjórnarandstöðu, oft vegna þess að þar voru minnihlutastjórnir eða stjórnir með lítinn meirihluta. Jafnvel þá virtist vera regla að menn semdu í það minnsta við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn til að tryggja að 70-80% þjóðarinnar væru á bak við þær breytingar sem verið var að gera. Það þýðir hægari breytingar, minni byltingar og minni átök. Það er lífsskoðun mín að það sé skynsamlegra að fara þannig í gegnum lífið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .