Forystumenn í atvinnulífinu hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir einstakar ákvarðanir sem viðkemur rekstrarumhverfi fyrirtækja. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group er þar á meðal.

Færri vita hins vegar að hann og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra og annar forystumaður ríkisstjórnarinnar, eru æskuvinir en um þetta er fjallað stuttlega í ítarlegu viðtali við Björgólf í áramótatímariti Viðskiptablaðsins. Eins og áður hefur komið fram hlaut Björgólfur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins 2012.

„Við erum búnir að þekkjast frá því við vorum þrettán ára og vorum saman að Laugum í Reykjadal. Svo vorum við í MA, í Háskólanum og höfum átt góð tengsl síðan,“ segir Björgólfur aðspurður um þetta og hvort hann komi þá sjónarmiðum sínum umbúðalaust á framfæri við Steingrím þegar þeir hittast.

„Við höfum passað okkur að ræða ekki pólitík, við Steingrímur. En þegar kemur að einhverju sem ég tel röng skref varðandi skattlagningu, sem hefur þau áhrif að skatttekjur minnka þótt prósentan hækki, þá ræði ég að sjálfsögðu það við hann,“ svarar hann.

„Mér fannst til dæmis ómerkilegt að hann benti á fjárfestingu okkar í flugvélum til að rökstyðja að ferðaþjónustan gæti vel greitt hækkun á virðisaukaskatti á hótelgistingu þegar málið var rætt á Alþingi. Þannig er reyndar íslenska pólitíkin og víðar. Mér fannst það lágkúrulegt vegna þess að hann veit betur. Hann veit að íslenski markaðurinn er takmarkaður og við vöxum ekki mikið á honum heldur með því að bjóða fleiri farþegum flug yfir Atlantshafið og það kemur þessari skattlagningu ekki nærri. Hann veit að hækkun á svona gjöldum, sérstaklega ef það er úr korti við samkeppnislönd okkar, hefur áhrif á eftirspurnina, sama hvað hver segir. Við tölum alltaf hreint út þegar við erum ósammála.“

Hafa ákvarðanir stjórnvalda gert ferðaþjónustunni erfitt fyrir?

„Það hefur verið óheppilega staðið að skattahækkunum sem snúa að ferðaþjónustunni eins og gistináttaskatturinn er dæmi um. Bara umræðan um skattinn hefur neikvæð áhrif og grefur undan trausti í samskiptum við þjónustuaðila erlendis, sem eru að kaupa ferðir til Íslands,“ segir Björgólfur.

„Öll óvissa hefur áhrif. Stöðugleiki í pólitíska litrófinu skiptir máli í þessu sambandi. Við höfum verið að reyna að byggja upp traust eftir hrun og það hefur tekist ágætlega. En allar svona aðgerðir ríkisvaldsins, sem breytir skattaumhverfi fyrirvaralítið, veikir aftur þessa vinnu.“

Hvað umræðu um hækkun á virðisaukaskatt á gistiþjónustu segir Björgólfur að honum hafi fundist hann bera skylda til, þar sem hann er í forsvari fyrir stærsta ferðaþjónustufyrirtækið á Íslandi, að fara til forsætisráðherra og gera henni grein fyrir afstöðu félagsins til þess hvað gæti gerst við svona ákvörðun.

„Ég hafði samband við aðstoðarmann hennar og bað um fund. Hún var upptekin þá vikuna. Ég hef ekki fengið að funda með henni enn,“ segir Björgólfur.

„Þetta var snemma í október og nú er kominn desember [viðtalið var tekið í desember innsk.vb.is]. Sennilega eru forsvarsmenn í atvinnulífinu henni ekki þóknanlegir. Ég er samt ánægður að hafa reynt að fá fund með henni til að gera henni grein fyrir okkar afstöðu í málinu milliliðalaust. Mér fannst rétt að verkstjóri ríkisstjórnarinnar heyrði það beint frá okkur en það tókst ekki. Þetta er sama sagan og allir stjórnendur í atvinnulífinu hafa að segja.“

Nánar er rætt við Björgólf í ítarlegu viðtali í áramótatímariti Viðskiptablaðsins.