Á opnu húsi utanríkisráðuneytisins á Menningarnótt verður boðið upp á fyrirlestra um ýmis verkefni þess. Meðal þeirra verkefna sem ráðuneytið sinnir undir formerkjum viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins er hagsmunagæsla og veiting upplýsinga í þágu íslensks atvinnulífs á erlendri grund. Í því felst meðal annars gerð viðskiptasamninga af ýmsum stærðum og gerðum, til að mynda fríverslunarsamninga, loftferðasamninga, tvísköttunarsamninga og fjárfestingarsamninga.

Langflestir samningar af fyrstnefndu gerðinni hafa verið gerðir í samstarfi við EFTA, en ríkin sem tilheyra því svæði eru næststærsta viðskiptasvæði Evrópusambandsins.

Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisþjónustunnar, segir ráðuneytið bæði í sókn og vörn fyrir íslenskt atvinnulíf. „Við gerum viðskiptasamninga um víða veröld. Nú erum við í viðræðum við Kína um fríverslunarsamning, en Ísland er fyrst Evrópulanda til að ganga til slíkra viðræðna við landið."

„Þetta felur í sér niðurfellingar á tollum, sem eru til að mynda á ýmsum sjávarafurðum sem við flytjum þangað út. Við reynum að skapa tengsl inn í stjórnsýslu þeirra ríkja sem íslensk fyrirtæki starfa innan,“ segir hann.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .