Framkoma Birgis Jakobssonar landslæknis í opinberri umræðu hefur að margra mati verið óvenjulega beinskeytt og að hann nálgist hlutina frá öðrum sjónarhornum en venjan er. Birgir var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni.

„Mér finnst alltaf best að tala um hlutina eins og þeir eru. Ég verð svolítið var við á Íslandi að fólk á erfitt með að gera það og að það sé talað í kringum hlutina. Það finnst mér ekki góð latína. Ég varð til dæmis var við það í sambandi við nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands og annað slíkt. Hún vakti tiltölulega litla umræðu og ég fékk á tilfinninguna að fólki fyndist óþægilegt að ræða þessi mál – sérstaklega ráðamönnum. Þetta væri svört og óþægileg skýrsla. Það er ekki þar með sagt að það verði ekki tekið á því sem hún gagnrýnir en það væri erfitt að ræða þetta opinberlega. Ég hélt að þessu yrði slegið upp í miklar fyrirsagnir og að fréttamenn hefðu á þessu hinn mesta áhuga. Þetta þykir mér dæmi um að það er ekki alveg tekið opinberlega á málunum og að menn tali ekki beint út. Þetta er kannski einhver meðvirkni í þessu litla þjóðfélagi,“ segir Birgir.

Undanfarið virðist sem umræðan um fjárþörf heilbrigðiskerfisins hafi verið minni en nánast frá aldamótum. Birgir telur þetta þó ekki endilega til marks um að nægilega mikið fjármagn sé veitt til heilbrigðiskerfisins.

„Fyrst verðurðu að ákveða hvaða kerfi þú ætlar að hafa, áður en þú bætir í það peningum. Ef við erum með kerfi sem er á rangri leið og við bætum peningum í það þá fer það bara hraða ranga leið. Mér finnst mikilvægt að huga fyrst að því. En að þessu sögðu þá vantar fjármagn inn í kerfið. Upp úr aldamótum var verulega dregið úr fjármagni til heilbrigðismála og svo bættist kreppan ofan á það. Ég held að íslenskt heilbrigðiskerfi hafi verið komið í algjört þrot eftir kreppu. Þá var farið að beita alls konar lausnum til að bjarga sér. Landspítalinn fór að flytja starfsemi út af spítalanum til að spara peninga. Sú þjónusta fór út í einkageirann, sem óx og sparnaðurinn varð kannski enginn. Fólk varð óánægt með opinbera þjónustu eins og gengur þegar hún er svelt. Þá spretta upp aðrir kostir til að bæta gallana í opinbera kerfinu með einkarekstri. Þetta gerist alls staðar ef þú dregur úr framlögum til hins opinbera,“ segir Birgir.

„Ég hef heyrt í prófessor frá Ástralíu sem sagði að þetta hefði verið gert nákvæmlega svona í Sydney – meðvituð ákvörðun stjórnvalda um að draga tennurnar úr opinbera kerfinu til að einkarekin kerfi spretti upp. Þetta er kannski ákveðið ofsóknarbrjálæði en ég held að þetta geti verið undirliggjandi einhvers staðar. Við þurfum allavega að vera meðvituð um það. Þess vegna hef ég þá ákveðnu skoðun að máttarstólpar í heilbrigðiskerfinu eigi að vera í opinberum rekstri. Við verðum til dæmis að koma upp geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á heilsugæslu og annars stigs geðheilbrigðisþjónustu í þjónustuteymum. Þessar stefnur eru til á pappír en við höfum ennþá ekki burði til að framkvæma þær vegna þess að það skortir fjármagn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .