Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að að það gæti verið raunhæft efnahagsúrræði að setja talbann á ráðherra Samfylkingarinnar.

„Það eina sem frá þeim hefur komið á undanförnum vikum og mánuðum er að tala niður gjaldmiðil Íslands og þar með fjármálakerfi og efnahagskerfi í landinu."

Þingmenn ræddu efnahagsmál utandagskrár á Alþingi í dag.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi. Hann sagði meðal annars að þjóðarskútan velktist um í ólgusjó og ölduróti. Í slíkum aðstæðum þyrftu Íslendingar að eiga eina þjóðarsál. Framsóknarmenn teldu mikilvægt að ráðast í samstillt átak á mörgum sviðum til að slökkva verðbólgubálið og hefja vaxtalækkun sem fyrst.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kvörtuðu yfir aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum en því vísuðu ráðherrar á bug.