Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings sem ákærður er fyrir umboðssvik af embætti Sérstaks saksóknara flutti ræðu fyrir héraðsdómi í gær. Ræðuna í heild sinni má lesa hér .

Hreiðar segist hafa gert sitt besta að gæta hagsmuna Kaupþings, og að ásakanir um umboðssvik særi hann inn að beini.

“Ég gætti hagsmuna Kaupþings í hvívetna í störfum mínum fyrir bankann.

Það er líkast til ómögulegt að raða í einhverri vitrænni röð hvaða ásakanir hafi sært mig mest en þó get ég ekki neitað því að ásakanir um að ég hafi ætlað að valda Kaupþingi tjóni í starfi mínu sem forstjóri bankans særa mig inn að beini.

Ég starfaði hjá Kaupþingi í fimmtán ár og tókst ásamt samstarfsmönnum mínum að koma því til leiðar að Kaupþing stækkaði ár frá ári og skilaði góðri afkomu. Við nutum trausts viðskiptavina, fjármögnunaraðila og hluthafa.”

Lindsor-málið og Sheikh Al-Thani

Hreiðar Már fjallar um Lindsor-málið í ræðu sinni, og segir dóm Hæstaréttar 2015 í Al-Thani málinu vera byggðan á upplognum sökum um markaðsmisnotkun.

Hreiðar segir Lindsor-málið hafa snúist um það þrennt að kaupa aftur útgefin skuldabréf Kaupþings vegna ólgu á markaðnum, fá inn fjárfesta frá Mið-Austurlöndum og vísar þar í Sheikh Mohamed Al-Thani frá Qatar, auk þess sem Kaupþing fjármagnaði kaup viðskiptavina bankans á skuldabréfum útgefnum af Deutsche Bank.

„En hver voru markmið okkar með þessum viðskiptum? Var markmiðið að valda Kaupþingi tjóni? Var markmiðið að auðga ákveðna viðskiptavini á kostnað hluthafa bankans og þar með á minn kostnað þar sem ég var einn af hluthöfum bankans?

Ég vildi óska þess að ég þyrfti ekki að svara spurningum af þessu tagi, því svarið er auðvitað augljóst. Nei, þetta voru ekki markmiðin með viðskiptunum. Markmiðið var að nýta stöðugt vaxandi innstreymi á innlánsreikninga Kaupþings á sem hagkvæmasta hátt.”

Kaupþing Edge og innlánavöxtur

Auk þess ræðir Hreiðar Kaupþing Edge málið þar sem Kaupþingi á að hafa tekist að safna heilum 5,5 milljörðum evra, sem jafngilti þá 770 milljörðum króna, í nýjum innlánum á ársbili - frá hausts 2007 til hausts 2008.

Þessi mikli innlánavöxtur ku þá hafa verið grundvöllur fyrir því að Kaupþing hætti sér til að fjárfesta í fyrrnefndum skuldabréf. Hreiðar gagnrýnir skýrslu rannsakenda sem minnist hvergi á þessa innlánasöfnun, og sakar skýrslu rannsakenda um að vera óhlutlæga.

„Heldur einhver með fullu viti því fram að hlutlægni hafi verið gætt við rannsóknir hjá Embætti sérstaks saksóknara?”

Gagnrýninn á starfshætti Sérstaks

Hreiðar ræðir því næst um að málflutningur Sérstaks saksóknara sé varhugaverður. Honum finnist uggvænlegt að ákæruvaldið hafi vald til að velja og hafna gögnum í málinu.

„Við hljótum öll að vera sammála um það að það gengur ekki upp að dómsstólar veiti ákæruvaldi fullkomið frelsi til að velja og hafna gögnum í mál. Við sjáum það með áþreifanlegum hætti í þessu máli.

Þar sem ákæruvaldið teflir fram á sjötta þúsund síðum af gögnum en sleppir minnsiblaðinu frá fundi með Deutsche Bank í febrúar 2008 og sleppir gögnum um innflæði á EDGE reikninga.”

Taldi engar líkur á greiðsluþroti Kaupþings

Hreiðar lýkur ræðu sinni á segja að hann hafi tekið mat af áhættunni af hugsanlegu gjaldþroti Deutsche Bank og Kaupþings hins vegar með tilliti til fyrrnefndra skuldabréfakaupa.

Hann segist ekki hafa talið neina áhættu á greiðslufalli Deutsche Bank, enda hafi það verið eitt stærsta fjármálafyrirtæki veraldar.

„Ég taldi áhættuna gagnvart Deutsche Bank enga vera, enda eitt stöndugasta og stærsta fjármálafyrirtæki veraldar. Að sama skapi taldi ég engar líkur á greiðsluþroti Kaupþings.

Viðskiptin voru alfarið ákveðin með hagsmuni Kaupþings að leiðarljósi. Ég hafði enga persónulega hagsmuni af viðskiptunum eða nokkur sem mér tengdist. Að því sögðu lýsi ég því yfir að ég er saklaus af ákæru.”