Fasteignasalan Gimli var sýknuð í Hérðasdómi Reykjavíkur af kröfu um að greiða fasteignasala annarrar fasteignasölu söluþóknun upp á 1,5 milljónir króna vegna eignar sem báðir aðilar voru með í sölumeðferð. Fasteignasalanum sem höfðaði málið var þess í stað gert að greiða Gimli eina milljón króna í málskostnað.

Í dómnum kemur fram að fasteignasalinn hafi fengið fasteign á borð til sín í sölumeðferð. Eignin hafi farið í almenna sölu en einnig verið í sölumeðferð hjá annarri fasteignasölu. Fasteignasalinn hafi verðmetið eignina, gengið frá söluyfirliti og auglýst eignina til sölu á fasteignavef fasteignasölu sinnar.

Fasteignasalinn hafi síðan verið í síma- og tölvupóstsambandi við aðila sem fékk upplýsingar um eignina frá stefnanda. Sami aðili keypti eignina að endingu með milligöngu Gimlis. Því taldi faseteignasalinn að sú vinna sem hann hafi lagt á sig við sölumeðferð eignarinnar hefði leitt til þess að samkomulag um kaup hefði náðst milli aðila.

Í dómnum kemur fram að Gimli hafi annast sölu eignarinnar á grundvelli umboðs seljenda og eigi stefnandi því ekki tilkall til þóknunar fyrir söluna á grundvelli hins almenna söluumboðs. Því var Gimli sýknað og fasteignasalanum gert að greiða eina milljón króna í málskostnað.