Tony Shearer, fyrrverandi forstjóri Singer and Friedlander varaði bresk yfirvöld því að stjórnendur Kaupþings væru ekki hæfir til að reka banka í þann mun sem Kaupþing var við það að yfirtaka Singer and Friedlander árið 2005.

Þetta kemur fram á vef BBC í dag en Shearer fundaði í dag með sérstakri rannsóknarnefnd breska þingsins sem vinnur að rannsókn bankakrísunnar á síðasta ári.

Nefndin rannsakar meðal annars störf breska fjármálaeftirlitsins sem Shearer segist hafa varað við stjórnendum Kaupþings. Hann sagði að allir stjórnarmenn Singer and Friedlander hefðu deilt þessari skoðun sinni.

Hann sagði að eftir að hafa skoðað ársreikninga Kaupþings frá árinu 2004 hafi vaknað hjá honum grunur um að ekki væri allt með felldu. Shearer sagði stjórnendur Kaupþings hafa tekið um 19 milljóna sterlingspunda að láni til að kaupa hlutabréf í eigin banka.

Sem fyrr segir sagði Shearer nefndinni að hann teldi stjórnendur Kaupþings ekki hafa reynslu til að stjórna alþjóðlegum banka. Hann sagði helminginn af hagnaði Kaupþings hafa komið til vegna fjárfestinga í fjármálageiranum en aðeins 10% vegna hefðbundinnar bankaþjónstu.

„Þeir voru öðruvísi, þeir ráku bankann á mjög undarlegan hátt,“ sagði Shearer við nefndina í morgun.

„Þetta var hópur ungs fólk sem hafði litla reynslu. Ég efaðist um það strax í byrjun, við einfaldlega treystum þeim ekki.“

Shearer sagði af sér stjórnarformennsku Singer and Friedlander í nóvember árið 2005. Hann segist hafa gert það af eigin frumkvæði þar sem hann vildi ekki vera ábyrgur fyrir starfsemi bankans undir stjórn nýrra eigenda.

Þá sagði hann að aðrir stjórnarmeðlimir Singer and Friedlander hefði lýst yfir áhyggjum sínum á fundi með breska fjármálaeftirlitinu í apríl árið 2005.

Breska fjármálaeftirlitið segir þó í tilkynningu í dag að Shearer hafi ekki metið stöðuna rétt.