Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) vísaði nýverið frá kæru manns sem hafði farið fram á að nefndin úrskurðaði um hvort Vestmannaeyjabæ væri skylt að veita honum aðgang að tölvu og prentara til að nálgast skjöl og gögn á heimasíðu bæjarins.

Kærandi málsins er mikill pennavinur sveitarfélagsins og nefndarinnar en áhugamenn um upplýsingarétt hafa vafalaust rekið augun í fjölda úrskurða sem varða afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðnum mannsins. Í einhverjum tilfellum hafði bærinn svarað erindum hans á þann veg að upplýsingarnar væru á heimasíðu bæjarins.

Maðurinn taldi það ekki nægilega gott enda átti hann ekki tölvu og taldi sig því ekki geta nálgast upplýsingarnar. Þá væri aðgangur að tölvum á bókasafni bæjarins ekki nægilega góður. Í tilefni af kæru mannsins hafði ÚNU samband við sveitarfélagið og spurði hvort íbúar gætu komist í tölvusamband „á bókasafni eða annars staðar hjá sveitarfélaginu.“ Svar barst um hæl. Jú, það eru tölvur á bókasafninu og prentari líka en prentun kostar 30 krónur á hverja síðu.

Í úrskurði sínum sagði ÚNU að unnt væri að bera undir nefndina synjun á afhendingu gagna í heild eða hluta. Einnig væri hægt að bera undir nefndina synjun um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Valdsvið nefndarinnar næði aftur á móti ekki til þes að fjalla um hvort afhendingarskyldum aðila sé skylt að veita aðgang að tölvu og prentara „eða eftir atvikum hvernig aðgengi er háttað að þeirri þjónustu sem veitt er á bókasafni Vestmannaeyja“.

Af þeim sökum var málinu vísað frá nefndinni.