Talið er að 10.000 störf glatist við fyrirhugaðan samruna HBOS og Lloyds. Meirihluti starfanna tapast í Englandi, en höfuðstöðvar hins sameinaða banka verða í Skotlandi. Áhersla verður lögð á að halda störfum í Skotlandi.

Þingmaður verkamannaflokksins frá Halifax, Linda Riordan, gagnrýnir starfamissinn harðlega og krefst þess að störf í Halifax verði tryggð. Hjá HBOS starfa 6.000 manns í Halifax.

Á meðan þúsundir starfa tapast hafa verkalýðsfélög sem og hluthafar gagnrýnt það að Andy Hornby, forstjóri HBOS, fái hlutafé að andvirði 2,4 milljóna punda (rúmlega 400 milljónir króna) í sinn hlut ef samruni bankans við Lloyds verður að veruleika. Gagnrýnendur segja hann þannig verðlaunaðan fyrir mistök.

Hornby mun fá hlut í Lloyds bankanum, en hann á núna rúmlega milljón hluti í HBOS. Fyrir þá fær hann 830.000 hluti í Lloyds sem er að andvirði 2,4 milljóna punda, eftir að bréf Lloyds hækkuðu um 20% á föstudag.