Talið er að allt að 165 þúsund störf kunni að glatast í New York í kjölfar þeirrar fjármálakrísu sem skollið hefur á heiminum eins og fljóðbylgja.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Wall Street í New York er miðja fjármálakerfisins í Bandaríkjunum en að sögn William Thompson, (framkvæmdastjóra félags sem bera má saman við félag starfsmanna fjármálafyrirtækja) er líklegt að á næstu tveimur árum muni fyrrnefndur fjöldi starfa glatast.

Ekki er þó um að ræða eingöngu starfsmenn fjármálafyrirtækja. Í nýrri skýrslu sem Thompson er meðhöfundur að kemur fram að þegar hafi um 40 þúsund starfsmenn fjármálafyrirtækja misst vinnuna og þá eigi um 35 þúsund manns sem vinna í fjármálageiranum eftir að missa vinnuna næstu tvö árin.

Þá kemur fram að önnur störf muni glatast í kjölfar mikils samdráttar fjármálakerfisins. Svo sem ræstingastörf, veitinga- og þjónustustörf, öryggisverðir muni missa vinnuna í stórum stíl.

Auk þess er talið að kennarar og leikskólakennarar sem starfa á Manhattan muni einnig missa vinnuna eftir að barnafjölskyldur, þar sem foreldrarnir störfuðu áður á Wall Street, muni þurf að flytja annað í kjölfar þess að missa vinnuna.

Til að bregðast við þessu hefur Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York lagt fram tillögu fyrir borgarstjórn sem felur í sér að fjármálafyrirtækjum verði heimilt að fresta eða jafnvel sleppa skattgreiðslum næstu árin.