Talið er að unnt sé að fá um það bil átta milljarða evra fyrir lyfjafyrirtækið Actavis. Þetta segir Rupert Hill, framkvæmdastjóri hjá Bank of America Merrill Lynch, sem hefur að sögn Financial Times fengið umboð til að selja fyrirtækið.

Samkvæmt frétt blaðsins verður Actavis boðið til sölu samkvæmt uppboðsmeðferð sem felst í því að sem flestir verða leiddir að borðinu og látnir bjóða í. Er gert ráð fyrir að sölunni verði lokið í maí næstkomandi.

Hér heima hafa talsmenn fyrirtækisins ekki vilja staðfesta að félagið sé komið í sölu en erlendir miðlar hafa verið ákaflega uppteknir við að flytja fréttir af væntanlegri sölu frá því hún spurðist út í dag. Er fullyrt í frétt FT að félagið hafi þegar vakið áhuga margra fyrirtækja í lyfjageiranum, bæði samkeppnisaðila og lyfjaþróunarfélaga.

Actavis var fimmta stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims árið 2007. Það stækkaði hratt í gegnum uppkaup á öðrum félögum þar til Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, keypti félagið með skuldsettri yfirtöku sama ár. Talið er að þá hafi verið greiddir 4,5 til 5 milljarðar evra fyrir félagið sem velti þá 1,6 milljarði evra.