Talið er að fyrsti bankinn til að þiggja aðstoð í nýrri 50 milljarða punda björgunaráætlun breskra stjórnvalda muni gera það strax í fyrramálið.

Fjármálaráðuneyti Bretlands er í samvinnu við banka þar í landi að vinna að tilkynningu sem birt verður áður en markaðir opna í fyrramálið. Talið er að fyrstu bankarnir sem bjargað verður séu HBOS og Royal Bank of Scotland.

Talið er að verið sé að semja um þá skilmála sem bankar þurfa að hlíta þiggi þeir neyðaraðstoð. Ekki er reiknað með að stjórnvöld krefjist þess að fá sína menn í stjórn, en talið er líklegt að sett verði fram krafa um að bankar dragi saman launakostnað og haldi eðlilegri útlánastarfsemi til einstaklinga og lítilla fyrirtækja áfram.

Stjórnvöld segja að samið verði við hvern banka fyrir sig.

Vilji bankar frekar leita til hluthafa í stað ríkisins um aukið hlutafé hafa bresk stjórnvöld gefið það út að ríkið muni sölutryggja hlutafjárútboðin.

Telegraph telur að breska ríkið muni leggja 12 milljarða punda í Royal Bank of Scotland, 10 milljarða í HBOS, 7 milljarða í Lloyds og 3 milljarða í Barclays. Sé það rétt mun breska ríkið eignast 70% hlut í HBOS og 50% hlut í Royal Bank of Scotland.