Líkur eru á því að húsnæðisverð falli á næstunni, segja sérfræðingar greiningadeilda í samtali við Viðskiptablaðið í dag. Þeir eru sammála um að ekki væri vel til fundið að fjarlægja húsnæðisverð úr vísitölu neysluverðs, eins og Morgunblaðið hefur eftir viðskiptaráðherra að verði skoðað.

"Það væri aldrei verri tími til þess en núna," segir Lúðvík Elíasson hjá greiningardeild Landsbankans. "Fasteignaverð gefur vísbendingu um tvennt. Annars vegar er það eignaverð, en hins vegar er það þannig að stór hluti útgjalda heimilanna er í eigin húsnæði. Ef við mælum neysluverð þarf að taka tillit til þess," segir hann.

"Það er ljóst að fasteignaverð mun, gangi spá okkar eftir, leika lykilatriði í því að ná verðbólgu niður á næstunni. Ef því væri kippt út úr mælingunni núna þýddi það að hækkunin væri læst inni," segir Lúðvík. Jón Bjarki Bentsson hjá greiningardeild Glitnis tekur í sama streng. Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.