Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra skoðar nú millifærslur upp á samtals hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga.

Grunur leikur á að stjórnendur bankans hafi fært vildarviðskiptavinum stórar fjárhæðir á silfurfati.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis barst Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra ábending þess efnis fyrir um hálfum mánuði.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 koma fram að ábendingin hafi verið það vel ígrunduð að ástæða þótti til að skoða málið nánar. Um er að ræða margar millifærslur upp á samtal hundrað milljarða frá Kaupþingi hér á landi til annarra landa, aðallega Lúxemborgar.

Þá telur fréttastofa Stöðvar 2 sig einnig hafa heimildir fyrir því að þetta sé meðal annars ástæða þess að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi lagt ríka áherslu á að stjórnvöld í Lúxemborg veiti þeim sem hafa með rannsókn á falli íslensku bankanna að gera nauðsynlegan aðgang að gögnum í dótturfélögum íslensku bankanna.

Sjá nánar á vísir.is