Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) mun að öllum líkindum hætta við lánveitingu sína til Úkraínu þar sem ríkisstjórn landsins hefur ekki uppfyllt skilyrði sjóðsins og haldið sig við fyrri áætlanir sem búið er að semja um.

Þetta kemur fram í Wall Street Journal (WSJ) í dag en blaðið telur að ef af verður munu stjórnvöld í Úkraínu þurfa að leita á náðir Rússlands sem muni leiða af sér frekari vandræði heima fyrir.

Í frétt WSJ kemur fram að mikið hefði legið á að koma á láni til landsins á sínum tíma vegna slæms efnahagsástands. Þá er rétt að rifja upp að Úkraína fékk lán rétt á undan Íslandi þrátt fyrir að Ísland hefði leitað fyrr til IMF.

Sendinefnd frá IMF var stödd í Kiev, höfuðborg Úkraínu í síðustu viku en fór þaðan án þess að skrifa undir samkomulag um greiðslu lánsins. Því er allt eins talið líklegt að IMF hætti við lánið.

WSJ greinir einnig frá því að í síðustu viku hefðu einnig farið fram viðræður milli embættismanna Rússlands og Úkraínu um lánveitingu til Úkraínu upp á 5 milljarða dali.

Þá hefur WSJ eftir Yulia Tymoshenko, forsætisráðherra Úkraínu að hún hefði þegar sent bréf til leiðtoga Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Kína og Japan þar sem tekið sé fram að yfirvöld í Rússlandi komi til með að ábyrgjast lán til Úkraínu.

Viktor Yushchenko, forseti Úkraínu er hins vegar ekki jafn ánægður með viðræður ráðamanna við yfirvöld í Moskvu.

„Þetta er hættuleg stefnumótun og setur þjóðarhagsmuni Úkraínu í uppnám,“ segir Yushchenko í samtali við WSJ.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að vegna ósættis Yushchenko og Tymoshenko komi upp vandamál við stjórn efnahagsmála sem IMF geti ekki sætt við sig. Þá efast sjóðurinn um að Tymoshenko og ríkisstjórn hennar vilji fylgja eftir þeim áætlunum sem þegar hefur verið samið um.

IMF hafði samþykkt að veita Úkraínu 16,4 milljarða dala lán og hefur þegar greitt út 4,5 milljarða dali. WSJ hefur eftir heimildarmönnum kunnugum málinu að ríkishalli í Úkraínu haldi áfram að aukast og engin stjórn sé á ríkisfjármálum landsins. Þá sé ekki unnið skilmerkilega að uppbyggingu bankakerfisins eins og gert hafði verið ráð fyrir.