Gengi hlutabréfa í Norrænu kauphöllinni OMX hækkuðu um 5,7% í dag í kjölfar orðróma um að samningaviðræður við bandarísku kauphöllina Nasdaq um yfirtöku á OMX væru nú á byrjunarstigi, segir í frétt Dow Jones.

OMX neitaði að tjá sig um málið, en hefur áður lýst því yfir að kauphöllin sé tilbúin til að íhuga sameiningu við aðrar kauphallir.

Gengi bréfa OMX hækkaði um 5% á föstudag í kjölfar frétta um að kauphöllin í London, LSE, væri að íhuga að gera tilboð í OMX.

Nasdaq á 25,1% hlut í LSE og hefur lýst yfir áhuga á að eignast kauphöllina að fullu, en Nasdaq neitaði einnig að tjá sig um málið.