Félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar keypti hlut í breska síma- og fjarskiptafélaginu Cable & Wireless, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en talið er að félagið hafi selt bréfin fyrir þó nokkru síðan og eigi nú lítið sem ekkert í félaginu.

Cable & Wireless gaf út afkomuviðvörun í gær og hríðféll gengi bréfa félagsins í kjölfarið. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins benda á að doði hafi verið yfir gengi bréfa Cable & Wireless og ástæðan fyrir að kaupum Novators hafi verið lekið í fjölmiðla sé sú að Richard Lapthorn, stjórnarformaður félagsins, eða tengdir aðilar hafi með lekanum reynt að "tala upp" markaðsvirði félagsins eftir að ljóst varð að félagið þyrfti að senda frá sér afkomuviðvörun.

Hlutur Novators var undir 3% og myndaðist því ekki flöggunarskylda. Cable & Wireless er skráð í kauphöllina í London. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Novator hafi talið að bréf Cable & Wireless væru undirverðlögð að það hafi verið aðal ástæða kaupanna á sínum tíma.

Talsmaður Novators sagði kaupin hafa verið samræmi við stefnu Novators um að fjárfesta í síma- og fjarskiptafyrirtækjum í Evrópu í samtali við Viðskiptablaðið.

Gengi bréfa Cable & Wireless hækkaði um rúmlega 3% á mánudaginn í kjölfar frétta um að Novator hefði keypt hlut í félaginu. En félagið tilkynnti í gær að afkoman á næsta reikningsári, sem endar í mars árið 2007, verði verulega undir væntingum og hrundi gengi bréfa þess um 15% í gærmorgun, stuttu eftir tilkynninguna. Forstjóri félagsins mun hætta störfum hjá félaginu vegna endurskipulagningar á rekstrinum.

Sumir sérfræðingar telja að lágt gengi Cable & Wireless geti orðið til þess að félagið verði skotmark fjárfestingasjóða og að Novator hafi reiknað með hækkun bréfanna ef kauptilboð bærist. Vert er þó að taka fram að þetta eru einungis getgátur sérfræðinga á fjármálamarkaði í London og ekkert hefur fengist staðfest um fyrirætlanir Novators.

Novator hefur aðallega fjárfest í síma- og fjarskiptafélögum í Mið- og Austur-Evrópu. En í Bretlandi hafa félög í hans eigu fjárfest í breiðbandsfélaginu Be Unlimited og netuppboðsfyrirtækinu QXL Ricardo, sem var hástökkvarinn á breska hlutabréfamarkaðnum í fyrra og hækkaði gengi bréfa félagins um rúmlega 1.200%.