Talið er að allt að 300 milljarðar króna liggi í séreignarlífeyrissparnaði í dag í formi margvíslegra og að sama skapi misáhættusamra eigna allt eftir því hvaða sparnaðarleið rétthafi hefur valið sér.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins í dag en þessi fjárhæð samanstendur af tvenns konar séreignarsparnaði.

Annars vegar er séreign sem myndast hefur sem hluti af skyldubundnu lágmarksiðgjaldi og hins vegar séreign sem stafar af viðbótariðgjaldi, eða allt að 6% af heildarlaunum.

Auk þess innifelur hún þann séreignarsparnað sem til varð fyrir gildistöku lífeyrislaganna 1998.

Í vefritinu kemur fram að ekki liggur fyrir hvernig áðurnefndir 300 milljarðar skiptast á milli þessara flokka séreignar, en lausleg athugun bendir til þess að allt að fjórðungur hennar, eða um 75 milljarðar króna, sé að stofni til hluti af hinu skyldubundna iðgjaldi og eldri séreign.

Í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að sett verði lög um séreignarsparnað sem veiti sjóðfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

Sjá nánar í vefriti fjármálaráðuneytisins.