Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu 300 íbúða í Helgafellslandi í Mosfellsbæ, sem eiga að rísa þar á næstu tveimur árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Talið er að íbúum Mosfellsbæjar muni fjölga um 1.000 vegna þessa.

Verkefnið var hafið þegar efnahagskreppan skall á og fór félagið Helgafellsbyggingar hf. í þrot. Hluti lóðanna er nú í eigu Hamla, dótturfélags Landsbankans.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við Morgunblaðið að mikil eftirspurn sé eftir lóðum í nýja hverfinu. Mikill skortur sé á íbúðum í Mosfellsbæ, sem og annars staðar á Höfuðborgarsvæðnu. Haraldur væntir þess að íbúum Mosfellsbæjar muni fjölga um 300-400 á ári út þennan áratug.

Haraldur segir jafnframt að sveitarfélagið sé vel í stakk búið til að leggjast í framkvæmdir sem þessar vegna lágrar skuldastöðu.