Stjórnvöld á Ítalíu lögðu í dag hald á eignir japanska fjárfestingarbankans Nomura upp á 1,8 milljarða evra, jafnvirði tæpra 1,8 milljarða íslenskra króna. Aðgerðin er liður í rannsókn nýrra stjórnenda ítalska bankans Monte dei Paschi á fjárhagsvanda hans en grunur leikur á að bæði Nomura og Deutsche Bank hafi hjálpað fyrri stjórnendum við að hylja tap frá augum eftirlitsaðila og hluthafa bankans á árunum 2008 og 2009. Monte dei Paschi var settur á laggirnar árið 1472 og einn elsti banki í heimi. Hann lenti í alvarlegum rekstrarvanda eftir að skuldakreppan skall á og varð ítalski seðlabankinn að leggja honum til 3,9 milljarða evra til að forða honum frá því að fara í þrot.

Svokölluð fjármálalögregla Ítalíu hefur verið með málið á sinni könnu og hefur hún m.a. lagt hald á fjármuni frá þremur fyrrverandi stjórnendum bankans, þar á meðal fyrrum formanni stjórnar, forstjóra og fjármálastjóra hans. Upphæðirnar nema 14,4 milljónum evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna.

Saksóknari í málinu segir eignirnar veð sem stjórnendur Monte deil Paschi hafi lagt fram gegn láni frá útibúi Nomura á Ítalíu.

Á vef bandaríska dagblaðsins The New York Times segir m.a. um málið að tilfærsla fjármunanna frá Monte dei Paschi hafi komið í ljós þegar Fabrizio Viola, sem tók við bankastjórastólnum í bankanum eftir að hann fór svo til á hliðina, fann færsluskjölin í peningaskáp bankans. Í kjölfarið voru voru reikningar bankans endurskoðaðir að nýju sem leiddi til þess að uppgjöri síðasta árs var breytt.

Monte dei Paschi tapaði tæpum 3,2 milljörðum evra í fyrra samkvæmt endurskoðuðu uppgjöri. Staðan var mun verri samkvæmt fyrra uppgjöri en þá nam tapið 4,7 milljörðum evra.