*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 26. september 2021 14:47

Talið aftur í norðvesturkjördæmi

Talningafólk hefur verið boðað á Hótel Borgarnes til að endurtelja atkvæði greidd í Norðvesturkjördæmi.

Ritstjórn
Frá Borgarnesi.
Haraldur Guðjónsson

Atkvæði í Norðvesturkjördæmi verða talin aftur. Þetta staðfestir Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar kjördæmisins, í samtali við Skessuhorn.

Segir Ingi að ástæða þess að lítill munur sé á atkvæðamagni sem gæti þýtt tilfærslu í jöfnunarsætarhringekjunni. Áætlað er að talning taki tvær til þrjár klukkustundir. Síðari jöfnunarmaður inn var Lenya Rún Taha Karim, þriðji þingmaður Pírata í Reykjavík norður, en flokkur hennar tók bæði jöfnunarsætin í kjördæminu. Næsti jöfnunarmaður inn er sautjándi þingmaður Sjálfstæðisflokksins en þar vantaði tæp 140 atkvæði upp á. Ljóst er þó að atkvæði til eða frá geta breytt þeirri mynd nokkuð.

Framsóknarflokkurinn var stærstur flokka í kjördæminu í nótt með rúmlega fjórðung greiddra atkvæða og þrjá kjördæmakjörna þingmenn. Þar á eftir fylgdi Sjálfstæðisflokkurinn með 22,5% og tvo þingmenn.Vinstri græn og Flokkur fólksins fengu einn mann hvort framboð en Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar, náði inn sem jöfnunarþingmaður. 

Næsti maður inn í kjördæminu var Teitur Björn Einarsson Sjálfstæðisflokki, þar vantaði að vísu 557 atkvæði upp á, en á eftir honum var Bergþór Ólason. Þar vantaði 199 atkvæði.