Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur vakið athygli sendiráðs Danmerkur og Bretlands á mannréttindavernd neytenda gegn mismunun á grundvelli þjóðernis, vegna frétta þaðan af brotum gegn íslenskum neytendum, samkvæmt frétt á heimasíðu Talsmanns neytenda.

Einnig hefur utanríkisráðuneytinu verið gert viðvart, svo og umboðsmanni neytenda í Danmörku.

„Auk þess hefur talsmaður neytenda rætt við kollega sinn í Danmörku, Forbrugerombudsmanden, og upplýst hann um nafn fyrirtækis sem átti í hlut í síðara tilvikinu en í fyrra tilvikinu gat hlutaðeigandi neytandi ekki upplýst um nafn verslunar. Ekki hefur enn náðst samband við til þess bær yfirvöld neytenda- eða mannréttindamála í Stóra Bretlandi en vonast er eftir að samband náist við þau á morgun í því skyni að þau bregðist við hugsanlegum brotum gegn mannréttindum íslenskra neytenda í ríkinu,“ segir í frétt á vef talsmanns neytenda, Gísla Tryggvasonar.