Aðgerðarleysi forráðamanna skólabarna felur ekki í sér samþykki við kaupum skólamynda

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason hefur að gefnu tilefni sent Pix-myndum tilmæli um að láta þegar af neikvæðri samningsgerð sem felst í því að líta á þögn sem samþykki.

Farið er fram á að tryggt verði að frá og með yfirstandandi skólaári verði aðeins þeir krafðir um greiðslu sem pantað hafa skólamyndir.

Þetta kemur fram á vef Talsmanns neytanda.

Þar kemur fram að eins og áður hefur verið fjallað ítarlega um að gefnu tilefni í talhorninu felur þögn neytenda ekki í sér samþykki við nýjum viðskiptum. Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur því að nýju sent tilmæli til fyrirtækis sem ekki hefur virt þessa grundvallarreglu í neytendamarkaðsrétti.

Að þessu sinni á í hlut fyrirtækið Pix-myndir sem hefur lengi selt skólamyndir til forráðamanna skólabarna; margar kvartanir hafa borist frá þeim, sem ekki hafa óskað eftir ljósmyndum og eru ekki sáttir við að þurfa að afpanta myndir sérstaklega - og jafnvel senda þær til baka í kjölfar þess að ekki var brugðist við heimsendum miðum um afpöntun.

Í tilmælunum segir:

„Að gefnu tilefni og teknu tilliti til sjónarmiða félagsins og með vísan til almennra tilmæla TN 07-3 frá 21. júní 2007 beinir talsmaður neytenda því vinsamlegast til Pix-mynda (Pix ehf.) sem seljanda skólaljósmynda til neytenda að láta þegar af neikvæðri samningsgerð. Þetta felur í sér að frá og með yfirstandandi skólaári og framvegis verði tryggt að aðeins þeim forráðamönnum skólabarna, sem hafa beinlínis óskað eftir ljósmyndum af börnum sínum, sé send óvalkvæð krafa vegna kaupa á slíkum myndum. Þetta tilkynnist hér með.“

Þar sem ekki náðist í félagið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir undanfarið og ekki hafði verið brugðist við drögum slíkra tilmæla í vor var afrit af tilmælunum sent eftirfarandi aðilum til kynningar hjá grunnskólum og foreldrum enda liggur fyrir að slíkar kröfur eru enn til innheimtu:

Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands,  Samtökin Heimili og skóli.

Af sömu ástæðu er afrit sent til Veitu ehf., innheimtuþjónustu.

Þar sem viðbrögð Pix-mynda við tilmælunum liggja enn ekki fyrir og Neytendastofa hefur einnig fengið kvartanir yfir þessu eru afrit einnig send til Neytendastofu sem kom að málinu á fyrri stigum.