Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason hefur sent opið bréf til útvarpsstjóra í tilefni af því að rétt þrjú ár eru liðin frá því að útvarpsstjóri tók við embætti - en á heimasíðu talsmanns neytenda kemur fram að sama daga hafi talsmaður neytenda stungið bréflega upp á samstarfi við að koma neytendamálum á framfæri í sjónvarpi almennings.

Bréfið er stílað á Pál Magnússon, útvarpsstjóra og birt á vefsíðu embættis talsmanns neytenda.

Í bréfinu kemur meðal annars fram að á fundi með útvarpsstjóra hafi talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason stungið upp á samstarfi um að kynna reglur um neytendamál og önnur mál sem varða borgarana en í bréfinu stendur að „slík kynning gæti að mínu mati verið hentugt og spennandi efni til mótvægis við aðra þjóðfélagsstrauma,“ segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.

Þá segir Gísli í opna bréfinu að sjónvarp í almannaþágu væri vel til þess fallið að koma á framfæri „þeirri gríðarmiklu þekkingu sem fjöldamargar opinberar stofnanir og almannasamtök búa yfir,“ segir Gísli Tryggvason og bæti því við að í síðara bréfi sínu hafi hann staðfest að hann hefði rætt við tugi slíkra aðila sem hefðu tekið jákvætt í hugmyndina.

Samkvæmt bréfinu telur talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason að fólk „hafi ekki tíma og tækifæri til þess að kynna sér á vefnum eða í bæklingum þær upplýsingar sem þó er auðvelt að bera á borð fyrir almenning í sjónvarpi.“

Hann segir að slíku kynningarhlutverki verði hvað best sinnt með því að ná með almennum og greiðum hætti til almennings, eins og það er orðað í bréfinu.

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason telur því, samkvæmt bréfinu,  æskilegt að ná samstarfi við aðra um þennan mikilvæga þátt í borgaralegu samfélagi nútímans.

„Tel ég að slík kynning falli vel að lögbundnu hlutverki Ríkisútvarpsins, svo og að hugmyndum nýs útvarpsstjóra um afmörkun á því," segir í bréfi talsmanns neytenda.

Í lok bréfsins segir talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason að hann hafi síðan þá ítrekað en árangurslaust áréttað erindi sitt - bæði óformlega og opinberlega.