Að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla hjá Kaupþingi, er umfjöllun breska blaðsins Sunday Times um innlánareikninga íslensku bankanna erlendis ekki byggð á upplýsingum frá þeim. Hann sagði það alrangt að verið væri að taka út af reikningum Kaupþings, sem bera heitið Kaupþing Edge, eins og lesa mátti í grein sunnudagsútgáfu Sunday Times. Þvert á móti hefði síðasta vika verið metvika þegar kæmi að innlánum. Í Viðskiptablaðinu í dag er haft eftir Jónasi að haft hefur verið haft samband við blaðið en auk þess sagði hann að breska fjármálaeftirlitið fengi yfirlit yfir innlánin með jöfnum hætti.

Kaupþing Edge er sá innlánareikningur sem ber nú hæsta vexti í Bretlandi, eða 6,86%, en þeir sem opna reikning verða að gera það með 5.000 punda framlagi. Reikningur Kaupþings fellur að fullu undir ábyrgð breska seðlabankans sem ábyrgist innlán upp að 35.000 punda markinu. Eftir erfiðleika Northern Rock-bankans hafa breskir sparisjóðseigendur verið hvattir til þess að dreifa innlánum sínum sem víðast og mun það hafa haft talsverð áhrif. Um leið hafa neytendur sótt meira inn í lengri binditíma reikninga og hærri vexti.

Að sögn Tinnu Molphy, talsmanns Landsbankans, var ekki haft samband við bankann við vinnslu greinarinnar. "Þetta er ekki í takt við raunverulega þróun á markaði," sagði Tinna en Landsbankinn hefur einnig upplifað aukningu innlána. Bankinn gaf upp, þegar ársuppgjör hans var kynnt, að þá væru tæplega 150 þúsund viðskiptavinir að nota Icesave- innlánsformið. Þá var sagt að 14% innistæðna væru bundnar til lengri tíma en nú mun það hlutfall vera komið í 25%.