Forsvarsmenn WikiLeakS.org greindu frá því á árlegri ráðstefnu Chaos Computer Club í Þýskalandi á milli jóla og nýárs að uppi væru hugmyndir um að gera Ísland að griðarstað upplýsingafrelsis og gagnaútgáfu.

Greint er frá þessu á bloggsíðu WikiLeak.

Var talsmönnum WikiLeak þeim Daniel Schmitt og Julian Assange gefinn kostur á að segja frá því á ráðstefnunni hvað hafi verið efst á baugi hjá WikiLeakS.org . Greindu þar frá því nýjasta í þeirra starfsemi, m.a. ferð til Íslands í nóvember sl.

Kom fram að vegna þess árangurs sem náðst hafi í að upplýsa Íslendinga um hvert hinir horfnu milljarðar úr hrunda bankakerfinu hafi farið með birtingu á lánabókum Kaupþings, hafi þeim félögum auðnast að ná góðu sambandi við pólitíska upplýsingamiðlun í landinu.

Segjast þeir hafa stungið upp á því við aðila hjá löggjafavaldinu á Íslandi að tækifærið yrði notað í enduruppbyggingunni til að skapa nýtt regluverk um upplýsingamiðlun. Skapa þannig bestu fyrirmynd í heimi að vernd fyrir uppljóstrara (whistleblower protection), persónuvernd, upplýsingavernd, afritunarlög, ærumeiðingarlöggjöf og fleira. Þannig mætti gera Ísland að griðarstað gagnaútgáfu (Publication Data Haven). Er Data Haven þar skilgreint sem tölvu- eða netkerfi sem safni upplýsingum sem njóti verndar gagnvart aðgerðum stjórnvalda.

Segja þeir að svo virðist sem þetta hafi hrifið suma þingmenn og telja þeir í undirbúningi sé gerð lagaramma sem verði til skoðunar fyrir lok janúar 2010.

Segjast þeir Daniel og Julian þó hafa uppi efasemdir um að þessi áform nái fram að ganga nema íslenskir stjórnmálamenn gangi í verkið áður en aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði tekin fyrir. Innan veggja Evrópusambandsins séu nefnilega ríkir hagsmunir þrýstihópa og kerfiskarla sem muni berjast gegn öllum slíkum áformum.