Velta í dagvöruverslun jókst um 12,2% í nóvember síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi. Á milli mánaðanna október og nóvember jókst velta dagvöruverslunar um 0,3%. Verð á dagvöru lækkaði um 0,4% á milli mánaðanna samkvæmt verðmælingum Hagstofu Íslands. Mun meiri veltuaukning varð í veltu húsgagnaverslunar í nóvember miðað við mánuðinn á undan, eða sem nam um 19,2%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Þar segir að svo virðist sem jólaverslunin hafi byrjað fyrir alvöru í húsgagnaverslunum í nóvember. Sala áfengis jókst aftur eftir að hafa dregist saman í tvo mánuði í röð. Sala áfengis í nóvember var 10,1% meiri en í mánuðinum á undan. Aukning í áfengissölu milli nóvember og sama mánaðar í fyrra nam 19,6% á breytilegu verðlagi og 17,6% á föstu verðlagi.

Velta í fataverslun jókst um 4,3% á milli október og nóvember en skóverslun dróst hins vegar saman um 2,7% á sama tíma ef miðað er við breytilegt verðlag. Verð á fötum var nánast óbreytt á milli mánaða en skór hækkuðu um 4,3%. Mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar á smásöluvísitölu fata- og skóverslunar hófust í byrjun þessa árs og því er ekki til samanburður á þessum tegundum verslunar frá því í fyrra.

Vísitölumælingar húsgagnaverslunar ná heldur ekki heilt ár aftur í tímann og vísitalan er því ekki samanburðarhæf við nóvember í fyrra. En ætla má að jólaverslun með húsgögn hefjist að öllu jöfnu heldur fyrr en í dagvöru og fataverslun samkvæmt upplýsingum frá aðilum í verslun. Verð á húsgögnum hefur haldist nokkuð jafnt undanfarna mánuði samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar.