Hlutabréf lækkuðu töluvert í Evrópu í dag og lækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 2,4%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins en viðmælandi Reuters fréttastofunnar segir hlutabréf í bönkum og fjármálafyrirtækjum hafa farið á brunaútsölu í dag þar sem lítið virðist rofa til í afkomu fjármálafyrirtækja á næstunni.

Þannig lækkaði Royal Bank of Scotland um 6%, Fortis um 5% Commerzbank um 4,8%, Barclays um 4,4% og Deutsche bank um 4,3% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,4%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,9% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,3%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,6%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,8%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,7% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,9%.