Hlutabréf lækkuðu talsvert í Evrópu í dag og hafa það sem af er degi einnig lækkað í Bandaríkjunum.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 2,1% og hefur ekki verið lægri frá því í október árið 2005 að sögn Reuters fréttastofunnar en vísitalan hefur lækkað um 22% það sem af er þessu ári.

Greiningaraðilar sem fréttastofan hefur rætt við telja „endalausar“ hækkanir á olíu auk orðróms um frekari afskriftir fjármálafyrirtækja helstu ástæðu lækkana á hlutabréfamarkaði.

Svissneski bankinn UBS lækkaði í dag um 5,3% og þýski bankinn Deutsche Bank lækkaði um 4,2% en fjölmiðlar bæði í Sviss og Þýskalandi hafa það eftir greiningaraðilum að bankarnir þurfi báðir að afskrifa nokkurt fé fyrir annan ársfjórðung.

Í Lundúnum lækkaði FTSEI 100 vísitalan um 2,6%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,7% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,6%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,6%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,1%, í Osló lækkaði OBX vísitalan  um 1,9% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,1%.

Bandaríkin

Í Bandaríkjunum hafa hlutabréf einnig lækkað frá því að opnað var fyrir viðskipti á Wall Stree kl. 13:30 að íslenskum tíma. Nasdaq hefur lækkað um 1,4% en Dow Jones og S&P 500 um 1,1%.