Talsverðar breytingar voru gerðar á stjórn Eimskipafélagsins á aðalfundi félagsins í gær. Þrír komu nýir inn í stjórnina en tveir fóru út.  Ekki er verið að fjölga í stjórn félagsins, því  Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins [ HFEIM ], sagði sig úr stjórn félagsins í lok árs 2007. Félag í hans eigu, Frontline Holding S.A., á enn 33,2% hlut í félaginu, samkvæmt hluthafaskrá.

Athygli vekur að enginn stjórnarmannanna, eða félag í þeirri eigu, er á lista yfir 20 stærstu hluthafa og menn tengdir Björgólfsfeðgum skipa flest sætin.

Tveir starfsmenn Novators, fjárfestingafélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, Orri Hauksson og Tómas Ottó Hansson, koma nýir inn. Þeir sitja einnig fyrir hönd Novators í stjórn finnska fjarskiptafélagsins Elisa. Tómas Ottó hefur áður setið í stjórn Eimskipafélagsins.

Friðrik Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri fjárfestingabankans Straums-Burðarrás, sem er að stórum hluta í eigu Björgólfsfeðga, kemur nýr inn í stjórn Eimskipafélagsins. Hann stýrði fjárfestingafélaginu Burðarás, sem síðar sameinaðist fjárfestingafélaginu Straumi, á þeim tíma er Eimskip var dótturfélag þess.

Sindri Sindrason er eftir sem áður stjórnarformaður félagsins. Hann settist í stjórnarformannsstólinn þegar Magnús sagði sig úr stjórninni. Þá hafði hann gengt stjórnarmennsku í félaginu um nokkurt skeið. Sindri er Björgólfsfeðgum að góðu kunnur. Meðal annars var hann forstjóri Pharmaco, þar sem feðgarnir voru kjölfestufjárfestar.

Gunnar M. Bjorg, þekktastur fyrir fjárfestingar tengdum flugi og búsettur í Lichtenstein, hefur tengst Eimskipafélaginu um nokkurt skeið. Rætur hans til félagsins má rekja til þess hann átti hlut í Íslandsflugi, sem síðar sameinaðist flugfélaginu Atlanta. Avion Group, félag sem lifði ekki lengi í sinni eiginlegu mynd, var móðurfélag Atlanta og Eimskipafélagsins um hríð.  Gunnar er elsti stjórnarmaður Eimskipafélagsins, 69 ára gamall.

Úr stjórninni fara menn tengdir Björgólfsfeðgum: Eggert Magnússon, fyrrverandi stjórnarformaður West Ham – sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, og Þór Kristjánsson, sem starfað hefur fyrir Samson og var aðstoðarforstjóri Actavis, félag sem þá var í meirihluta eigu Björgólfsfeðga. Novator er langstærsti eigandi Actavis eftir að félagið var afskráð af hlutabréfamarkaði í sumar.

Frontline er stærsti hluthafi Eimskipafélagsins með 33,8%, Fjárfestingafélagið Grettir, sem er í eigu Björgólfsfeðga, á 33,15% og Landsbanki Luxembourg á 8,6% hlut.