Ákvörðun þjóðarleiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins að þrefalda björgunarsjóð sambandsins, endurfjármögnun banka evrulandanna og samkomulag um fjárhag Grikkja í gær, skilaði sér með hressilegum hætti við opnun hlutabréfamarkaða í Bandaríkjunum.

Dow Jones-vísitalan hefur nú hækkað um 1,96% og Nasdaq-vísitalan um rúm 2,0%. Þá hefur S&P 500-hlutabréfavísitalan rokið upp um 2,28%.

Hlutabréfavísitölur í Evrópu ruku upp strax við opnun markaða í morgun, gengi hlutabréfa í bönkum hefur hækkað talsvart, allt upp undir 22%.

Gengi hlutabréfa í bandarískum bönkum hefur sömuleiðis hækkað mikið. Þar á meðal hefur gengi hlutabréfa Bank of America hækkað um 5,8% og bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs rokið upp um tæp 5,5%.