Gengi hlutabréfa N1 hefur hækkað um 4,4% í 333 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Þótt þetta sé mesta hækkunin á hlutabréfamarkaði í dag þá er hún ekkert einsdæmi enda hefur gengi hlutabréfa hækkað töluvert í dag. Fram kemur í uppgjöri N 1 sem birt var síðdegis í gær að hagnaður N1 á öðrum ársfjórðungi nam 483 milljónum króna samanborið við 82 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,85%. Hækkunin nú bætist við 0,41% hækkun á markaðnum í gær. Haraldur I. Þórðarson , framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Straumi, sagði í gær að töluverð velta óg lækkun á ávöxtunarkröfu nær allra skuldabréfa í kjölfar álits EFTA-dómstólsins í gærmorgun hafi smitað út frá sér á hlutabréfamarkað.

Fram kom í álitinu að tilskipun Evrópusambandsins leggi ekki almennt bann við skilmálum verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það sé hins vegar íslenskra dómstóla að leggja mat á það hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur.

Á sama tíma og gengi bréfa N1 hefur hækkað um 4,4% hefur gengi bréfa Icelandair Group hækkað um rúm 3%, Sjóvár um 2,74%, TM um 2,44%, VÍS um 2,41% og HB Granda um 2,04%. Þá hefur gengi bréfa Eimskips , sem sömuleiðis birti uppgjör sitt í gær, hækkað um 1,56% og Regins um 0,95%.