Gengi hlutabréfa Sjóvár féll um 2,94% í 176 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Á sama tíma féll gengi bréfa TM um 2,46%. Þetta var mesta gengislækkunin á annars rauðum degi á hlutabréfamarkaði.

Jafnframt lækkaði gengi bréfa Eimskips um 1,71% og VÍS um 1,44%. Þá lækkaði gengi bréfa Marel um 1,45%, Haga um 1,16%, Icelandair Group um 1,15% og Vodafone um 1,09%. Gengi bréfa fasteignafélagsins Regins lækkaði á sama tíma um 0,63% og N1 um 0,32%.

Á hinn bóginn hækkaði gengi bréfa HB Granda um 1,22% og stoðtækjafyrirtækisins Össurar um 0,17%.

Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam 981,4 milljónum króna. Mest var veltan með hlutabréf HB Granda eða upp á 199 milljónir króna.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,17% og endaði hún í 1.109 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan í janúar á þessu ári.