Gengi hlutabréfa Össurar hefur fallið um nærri þrjú prósent í Kauphöllinni í dag eftir 1,4% hækkun í gær. Uppgjörið litaðist af söluvexti á öllum mörkuðum og í takt við væntingar stjórnenda. Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka kemur fram í dag að 17,9% EBITDA-framlegð hafi hins vegar verið undir væntingum.

Rauði lækkunarliturinn einkennir hlutabréfamarkaðinn en auk gengislækkunar bréfa Össurar þá hefur gengi bréfa Icelandair Group lækkað um 1,13%, Marels um 0,33% og Haga um 0,27%.

Einungis hlutabréf færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum og BankNordik hafa ekkert hreyfst í dag.

Úrvalsvísitalan hefur það sem af er dags lækkað um 1,15% og stendur hún í 1.057,75 stigum.