Áhugaverð álitaefni blasa við vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar Neytendasamtakanna (NS) sem beinist að vaxtaákvörðunum bankanna. Færa má gild rök fyrir því að vafi sé uppi um hvort ákvæði lánaskilmálanna, þess efnis hvenær vextir taka breytingum og hvað hefur áhrif við það mat, standi ekki styrkum stoðum. Aftur á móti blasir ekki við hvað tekur við í kjölfarið.

Fyrir rétt rúmum tveimur vikum boðuðu NS málssókn gegn Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka og óskuðu eftir því að lántakar gæfu sig fram til þátttöku í málarekstrinum. Breki Karlsson, formaður NS, segir að ríflega þúsund lántakar hafi skráð sig til þátttöku. Í kjölfarið verða valin þrjú mál, eitt gegn hverjum banka, sem stefnt verður fyrir dóm.

„Það er til skoðunar að gera þá aðalkröfu, verði fallist á að vextirnir séu ólögmætir, að fella beri vextina niður og þeir verði einfaldlega núll,“ segir Breki Karlsson. Rétt er að minnast á, þó að vafa skuli vissulega skýra neytenda í hag þegar um einhliða samningsskilmála er að ræða, að slík niðurstaða myndi ryðja brott áratugalangri venju kröfuréttarins um að bankar og lánastofnanir eigi rétt til vaxta af lánum þótt um þá hafi ekki verið samið. Slíkt hefur hingað til verið talin eðlileg fylling slíkra samninga.

„Þá verður líklega gerð krafa um að ákvæði skilmálanna verði fellt úr gildi og að í staðinn komi almennir vextir samkvæmt vaxtalögum. Það að láta vextina taka engum breytingum, eins og bankarnir hafa túlkað þetta hingað til, er í raun vaxtaákvörðun sem þeir taka á grunni ólögmætra skilmála og við teljum það ekki standast,“ segir Breki. Þá verður sennilega höfð uppi varakrafa um að víkja þeim þáttum samningsskilmálanna sem hafa eitthvað með „huglæga mælikvarða“ bankanna, þar nefnir Breki til sögunnar þætti á borð við rekstrarkostnað og arðsemi þeirra, úr gildi.

Af samræðum blaðsins við lögfróða einstaklinga liggur ekki beint fyrir hvað tæki við ef skilmálarnir halda ekki gildi sínu. Samkvæmt vaxtalögum eiga almennir vextir fjórðu greinar við ef „samningsákvæði um vexti“ telst ógilt. Þeir vextir eru almennt lægri en þeir vextir sem meirihluti bankanna hefur boðið og slík niðurstaða myndi þýða að lántakar ættu kröfu á bankana.

Aftur á móti gæti á hinn bóginn verið mögulegt að túlkun bankanna haldi og þá tækju upprunalegir vextir við. Sú niðurstaða myndi þýða að lántakar hefðu ekki átt að njóta lægri vaxta síðustu mánaða en eru á móti varðir ef vextir takast á loft seinna meir. Lántakar með lán á föstum vöxtum ættu á móti kröfu á bankann sinn. Í öllu falli er viðbúið, verði niðurstaðan á þennan veg, að lánastofnanir muni hækka álagningu sína á nýjum fasteignalánum til neytenda til að verja sig fyrir óvissu. Verði niðurstaðan sú að ákveðnir þættir skilmálanna haldi ekki gæti þurft að dómkveðja matsmenn til að meta hverjir vextirnir hefðu átt að vera.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .